About Me

My photo
Pascal Pinon consists of twins Ásthildur & Jófríður from Reykjavík, Iceland. Together they play low-fi indie acoustic pop in their bedroom. Welcome to this little blog with various things, interesting and not so interesting at all.

Friday, November 11, 2011

ferðasaga

Halló halló,
þökk sé Kraumi tónlistarsjóði (www.kraumur.is) gátum við, 17 ára tónlistarkonurnar (og pabbi á mixernum), ferðast yfir hálfan hnöttinn til að spila og syngja fyrir kínversku þjóðina. Eftir mikinn undirbúning og oft á tíðum vafa um hvort ferðin myndi yfir höfuð eiga sér stað, var allt komið á hreint. Visa, performance license og auðvitað flugmiðarnir. Svo við fórum í flugrútuna kl.5 og svo á Leifsstöð á fimmtudagsmorgni 27.október. Við flugum til Parísar, biðum þar í 10 klukkutíma og flugum svo til Shanghai um nóttina. Alveg helluð lentum við á Pudong og þar beið okkar Julia Yu, tour manager og túlkur. Við vorum svo helluð að við gleymdum einni töskunni á flugvellinum, en sem betur fer föttuðum við það nógu snemma svo það var ekki nema klukkutími sem fór í að sækja hana aftur. Fall er faraheill hugsuðum við og keyrðum og keyrðum þar til við vorum komin til Hangzhou. Við tékkuðum okkur inn á hótelið og fórum beint að sofa.Daginn eftir voru fyrstu tónleikarnir. Þeir voru á West Lake festival og við vöknuðum snemma til að keyra í sándtékk. Festivalið var mjög stórt, en á allri hátíðinni mættu 16.000 manns. Á tónleikunum okkar voru 1000-2000 manns og það gekk alveg eins og í sögu.

Það kom okkur á óvart hvað kínverjarnir voru allir gríðarlega spenntir að taka af sér mynd með okkur en við vorum, eftir tónleikana, í klukkutíma að árita diska og brosa á myndum með hinum og þessum aðdáendum.Daginn eftir áttum við ævintýralega upplifun í Hangzhou, en þá fórum við á veitingastað uppi á fallegu fjalli og pöntuðum þar alskonar framandi rétti. Með okkur í mat var promoterinn og maðurinn sem gerði þennan túr að veruleika, Ni Bing.Eftir það fórum við að skoða sögulegt stöðuvatn í nágrenninu og sigldum um vatnið. Julia sagði okkur alskonar kínverskar þjóðsögur sem voru sprottnar upp frá þessum stað, og við skoðuðum fræga minnisvarða/styttur sem er að finna á seðlinum þeirraDaginn eftir það flugum við til Guangzhou. Þar var veðrið ótrúlegt gott og við, Íslendingarnir, í algjöru sjokki yfir þessu hlýja októberloftslagi.

Um kvöldið spiluðum við á tónleikum í Guangzhou og af því að það var var hrekkjavaka þá ákváðum við að vera með grímur í einhverjum lögum.

Daginn eftir keyrðum við til Shenzen. Fyrst komum við á hótelið en við gátum ekki stoppað lengi þar því við þurftum næst að keyra þangað sem tónleikar kvöldsins áttu sér stað. Algjörlega óafvitandi enduðum við á frönskum veitingastað lengst í úthverfi Shenzen borgar þar sem allar konurnar voru með Chanel töskur og karlarnir reykjandi vindla.Það var samt þannig að þetta var líka viðurkenndur tónleikastaður, þótt við höfum aldrei séð annað eins, og mjög margir gestir kæmu þangað til þess að uppgötva nýja tónlist. Á tónleikunum var líka kynnir, en það hafði ekki verið þannig áður á túrnum, og hann kynnti okkur eftir fyrsta lagið og svo aftur eftir annað lagið. Það var mjög súrrealísk stund þar sem hann stóð og benti á okkur og talaði og talaði og fólkið hló og á meðan höfðum við ekki hugmynd um hvað hann var að segja. Við hlógum svo mikið eftirá að það var erfitt að spila í næstu lögum.

Næsta dag (þá er kominn 2.nóvember), ákváðum við að skoða bæinn og fórum á risastóra verslunargötu. Af því það var svo gott veður fengum við okkur ís.Um kvöldið spiluðum við á klúbbi sem var í sömu byggingu og hótelið okkar. Hann heitir True Color Club og þar var fólk búið að safnast saman áður en við áttum að spila. Af því það var svo mikill hávaði í fólkinu ákváðum við að hækka rosalega mikið í okkur, svo að við stelpurnar þurftum að vera með eyrnatappa. Þessi hljóðstyrkur sagði Julia samt að væri mjög eðlilegur.Daginn eftir vöknuðum við eldsnemma til þess að fljúga til Shanghai, lokaáfangastaðar í ferðinni.Við tékkuðum okkur inn á hótelið og fórum svo að skoða bæinn.Við lentum í því að týnast á háannatímanum og urðum þess vegna of sein í kvöldmat með Ni Bing. Af því það var engan leigubíl að fá kom hann bjargvættur á leiguvespu og við fórum út að borða.Daginn eftir var tónleikadagur. Við fengum far í lúxus Mercedes Benz bílum á tónleikastaðinn, sem var í sal í sama húsi og risa risa Mercedes Benz arena. Það kom í ljós að er vinnustaður Ni Bing, sem sér líka um stóra stóra salinn. Við sándtékkuðum og fengum svo sérherbergi til að hafa okkur til.

Tónleikarnir gengu eins og í sögu en í salnum, sem líkist meira leikhúsi en tónleikastað, var allt til alls og sándið sérlega gott. Þetta voru seinustu tónleikarnir á túrnum.Við komumst að því að daginn eftir voru Akon tónleikar á risa arenanu og spurðum Ni Bing hvort hann gæti útvegað miða. Okkur til mikillar gleði var það minnsta mál í heimi svo að daginn eftir fórum við á tónleika með þessum mikla keisara, sem við vorum allar aðdáendur að í 6.bekk, og skemmtum okkur konunglega.Síðasta daginn okkar fórum við á antíkmarkað, skoðuðum borgina og fórum í frægt musteri þar sem við borðuðum heimsfræga dumplinga (þurftum að bíða í röð í 40 mínútur).Þetta var með sanni æðisleg ferð og við viljum aftur þakka Kraumi fyrir að gera hana að veruleika.
Allar heimsins bestu kveðjur!
Pascal Pinon